...hmmm

fimmtudagur, maí 29, 2008

Þessa stundina ætti ég að vera stödd í flugstöðinni á leið til Spánar. Það er búið að breyta flugtímanum okkar 4 sinnum og núna er einhver bilun í vél, þannig að flugið okkar sem átti að vera 11:30 eftir síðustu breytingar er núna áætlað kl. 18:35. ...og já, ÁÆTLAÐ! það er ekki komin staðfesting þannig að því seinkar nú líklega meira. Það er einmitt líka búið að seinka Alicantevélinni frá því í gær, og mig grunar að sú vél eigi eftir að fljúga út til Alecante og til baka aftur að sækja okkur þegar búið er að gera við hana.

Ég, Ari, Halldór og Eva ætlum að fara á Kringlukránna í hádeginu og ímynda okkur að við séum á Spáni :D

sunnudagur, maí 18, 2008

hahaha, hvað ég hló áðan. Urður kom spígsporandi hérna inn eftir að hafa verið úti með Ynju og tilkynnti okkur hróðug með bros á vör að þær hefðu verið að éta hundaskít :D
...þetta var næstum því rétt, en gott að segja kannski frá því að þetta voru hundaSÚRUR sem þær systur voru að éta ;)

laugardagur, maí 17, 2008

Dagurinn í dag hófst með rigningarferð í húsdýragarðinn. Ég man alltaf þegar ég er komin á svona fjöldasamkomur að mér finnst fátt ömurlegra en að standa í biðröðum, krakkagreyin fengu þessvegna ekki að fara í nein tæki (sem þeim fannst reyndar allt í lagi), en við fórum reyndar í pulsuröðina til að fá blauta og klessta pulsu ...ojbara! Urði fannst gaman að skoða dýrin þannig að ferðin var nú ekki alveg til einskis ;)
Svo fórum við í Salinn í Kópavogi þar sem Ynja var að syngja með kór Kársnesskóla. Alveg dásamlegt að horfa á þessar elskur, allar svo sætar og góðar með fallegar englaraddir. Bakkelsið í salnum var nú eitthvað annað en klesstu pulsurnar í Húsdýragarðinum - enda færustu húsmæðurnar í vesturbæ Kópavogs að sjá um baksturinn, þar á meðal ég, hehe ;)
Urði fannst rosalega gaman á tónleikunum. Fyrst var hún svolítið þreytt og notaði puttan á pabba sínum til að troða í nefið á sér, af því að sængin var ekki á svæðinu. En eftir því sem lögin hresstust, hresstist Urður líka og var á endanum farin að hendast um allan salinn dillandi bossanum og hoppandi eins og lína langsokkur með tvær rauðar fléttur sem stóðu út í loftið. - en það var nú í góðu lagi, þetta voru svona frjálslegir tónleikar og maður þarf ekkert að vera stilltur á svoleiðis :)

mánudagur, maí 12, 2008

Ég biðst afsökunar á mjög löngu blogg-hléi :)
Ég hef bara verið alveg á fullu í prófum og ritgerðarskilum. Allan tíman hef ég verið mjög óviss um hvort mér tækist að klára þessar 19 einingar, en ég er nokkuð viss um að það hafi tekist :D ...sem þýðir þá að ég er að útskrifast þann 14.júní.
Við fórum út að borða á laugardaginn á Sjávarkjallarann ...og jeminn, ég fer bara að slefa þegar ég hugsa um það. Við fengum 16 rétta máltið og vááá hvað þetta var gott. Við borðuðum meðal annars hreindýr, naut, önd, kengúru, lax, túnfisk, smálúðu, humar, skelfisk, saltfisk ...og eitthvað fleira, þó ótrúlegt sé! Við Ari skelltum okkur þarna með Halldóri frænda og Evu, sem er konan hans, og Hrund frænku minni, það er ekki hægt að biðja um betri félagsskap við að slafra í sig svona dásamlegum mat :)
...svo er svo margt spennandi framundan, ég byrja í nýrri vinnu á morgunn, fer til spánar eftir rétt rúmar tvær vikur, ásamt áðurnefndum Halldóri og Evu, og svo bara útskrift!
Ástæðan fyrir því að ég er að blogga núna er sú að mér finnst eins og ég hafi ekkert að gera, ég þarf ekki að læra, ég er búin að þrífa allt, Ari og Óðinn eru á bílasýningu og ég er bara hérna heima með ekkert betra að gera en fylgjast með þessum 7 stelpum sem eru hérna núna - mínar tvær og fimm aðrar.
Ég þarf kannski að fara að rifja upp gömul áhugamál eins og að baka eða sauma út, hehe.