...hmmm

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Það lýsir vel ástandinu á heimilinu þessa dagana það sem hin ofur-hreinskilna dóttir mín sagði við mig í gær, með mikinn hneykslunarsvip á andlitinu:

"mamma!, við höfum ekki fengið neitt nema eitthvað ruslfæði hérna undanfarna daga!!"

Þetta er eiginlega alveg rétt hjá henni, blessuninni, þar sem mamman er lærandi við hvert tækifæri, sinnir aðeins brýnustu heimilisstörfum eins og að sjá til þess að til séu sokkar og hreint leirtau, og eldar tómar pulsur og pakkapasta! (...ég veit ekki alveg hvað varð af pabbanum á heimilinu, en eitthvað finnst mér eins og ég hafi séð hann lítið undanfarið ...kannski er það bara af því að ég er annarshugar og voða bissí eitthvað :) Ég er samt að hugsa um að reyna að taka einn verslunardag um helgina, ég er búin í prófunum 21 des og sé framá að eiga þá eftir að þrífa allt ...ehh ...gangi mér vel! Koma ekki jólin annars alveg þó það sé ekki hreint í öllum skúmaskotum?

...það góða við skammdegið er að þá sést rykið ekki eins vel, og ef maður slekkur líka og kveikir á kerti ...þá virðist allt vera voða fínt bara ;D

Planið í bili er semsagt að slökkva ljósið og kveikja á kerti

Ég verð nú líka að þakka mömmu og Heidí systir fyrir að bjarga afmælinu hennar Ynju um daginn ...það hefðu verið tómar jóa-fel kökur ef þær hefðu ekki reddað þessu ...eða eins og Ynja orðaði þetta í símann við ömmu sína ..."mamma er ekki búin að gera neitt!! *hneyksl*" ...yndisleg, þessi elska.

...jólakveðja: Ester :D

mánudagur, nóvember 27, 2006

Ekki nóg með það að ég eigi ömmu sem bakar bestu kleinur og bollur í heimi, heldur á ég líka ömmu sem er hraust, dugleg og tekur afstöðu. Ég sá mynd af ömmu minni á netinu í dag, þar sem hún var að taka þátt í leik. Þessi leikur heitir "yfir" og fólk á Hólmavík hópaðist saman til að spila hann yfir gamla barnaskólann á Hólmavík, til að mótmæla niðurrifi hans. Ég er hjartanlega sammála ömmu minni, sem og fleirum, í þessu máli, og er algjörlega á móti niðurrifinu. Amma mín er alveg yndisleg og ég er ótrúlega stolt af henni!! Greinin á netinu er hér og þeir sem vilja kynna sér umræðurnar, geta séð þær hér

laugardagur, nóvember 25, 2006

Ég verð nú að segja að tölfræðileg þáttagreining er eitthvað sem ég mæli ekki með! Ég er búin að vera nonstop í 8 klukkutíma að klára síðasta skilaverkefnið mitt á þessari önn. Ég er líka mjög stolt af því að hafa öðlast einstakan hæfileika til að útiloka utanaðkomandi áreiti þegar ég er að vinna. Það voru semsagt 4 börn hér í allann dag, mín þrjú og svo Þorgils hennar Heiðdísar ...og ég get nú sagt ykkur að það er ekkert rosalega hljóðlátt þegar þessi "yndislegu og ljúfu" börn koma saman. ...annars, húrra fyrir því að sjá fyrir endann á þessari önn, ég er strax byrjuð að skála í rauðvíni ;)

mánudagur, nóvember 20, 2006

Rosa gaman að leika úti í snjónum. Hér eru Ynja, Óðinn og Urður, ásamt Telmu vinkonu úr húsinu á móti.
Þegar ég var að fara að sækja Urði til dagmömmunnar í dag, sá ég hvar gömul kona var að reyna að ýta bíl annarrar gamallar konu, þar sem bíllinn sat fastur í skafli. Alveg týpískt fyrir Reykvíkinga að keyra bara framhjá þó að sjötug kona sé ein að reyna að ýta bíl. Það eru bara svona landsbyggðalúðar eins og ég sem stoppa til að hjálpa. Ég lagði líka bara bílnum mínum á miðja götuna og var bara skítsama hverja ég var að tefja og trufla. Það tók þrjár tilraunir að ná bílnum úr skaflinum ...og nota bene: umferðin öðru megin var stopp á meðan, en samt fór enginn út úr bílnum til að aðstoða! Sjáandi það að þarna var ein gömul kona og einn dvergur að ýta ...djöfulsins pakk!!
Ég man nú þegar maður bjó úti á landi, þá var maður ekki fyrr búinn að festa sig en einhver var mættur með kaðal, skóflu og bros á vör :D
Þrefalt húrra fyrir landsbyggðinni!!!

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Allt ófært í höfuðborginni! Það er eiginlega bara orðið langt síðan maður hefur séð almennilegan snjó ...ég held meira að segja að Ari hafi komist í smá jólaskap við þetta. Ég fer alveg í sveitafílinginn, er bara á náttbuxunum og lopasokkum og skellti í pönnsur fyrir liðið mitt sem var búið að vera úti að moka innkeyrsluna. Voða kósí að fá smá storm af of til. Ég þyrfti nú eiginlega að setja inn nokkrar snjómyndir handa útlandabúunum okkar. Er ekki annars bara snjólaust í Danaveldi?

föstudagur, nóvember 17, 2006



Hér koma umbeðnar hárgreiðslumyndir, þó það sé nú ekki búið að gera neina töffaragreiðslu í hann þarna ...bara svona venjulegt skóladagshár :D Annars eru Óðinn og Urður hérna að leika sér í dýnuhúsi sem við gerðum á ganginum hjá kattahliðinu. Nýjasta nýtt hjá Urði núna er að fara afturábak og troða rassinum í gegnum gatið fyrir köttinn, og svo situr hún þar föst ...og gerir þetta samt aftur og aftur og aftur. Sá sem fann upp máltækið "brennt barn forðast eldinn" hefur alveg örugglega ekki átt barn sjálfur!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Án gríns ...það er ekki hægt að vera pæja í svona veðri. Ég held að það sé alveg málið að vera í lopapeysu, lopasokkum og með hettu ...undir sæng að lesa klíníska sálfræði. Svo ef maður þarf að skreppa út er um að gera að troða sér í úlpuna utanyfir þetta alltsaman og vefja um sig stórum trefli ...það er líka svona "extremely bad-hairday" hjá öllum held ég, á svona dögum. Ég var einmitt með hann Óðinn minn í klippingu í dag og hann var í miklum vandræðum. Það var ógeðslega kalt, en hann gat samt ekki sett á sig húfu af því að þá náttúrulega skemmist nýja hárgreiðslan ...þannig að af tvennu illu valdi hann frekar að vera kalt ...enda nýbúið að skella fullt af geli og spreyi í hausinn á honum, og hann alveg með smælið út á kinnar yfir nýju hárgreiðslunni. ...maður er nú ekki töffari fyrir ekki neitt!!

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Jólin, jólin, jólin koma brátt... jú, víst! Jólin eru víst að koma bráðum, og ég er sko búin að kaupa jólapappír, 7 og hálfa jólagjöf, og smá jólaskraut. Mér finnst jólin alltaf svo skemmtileg og er bara farin að hlakka til alls jólastússins. Ég hefði nú samt ekkert á móti því að fá einhvern til að gera jólahreingerninguna fyrir mig, þar sem ég er í prófum til 21. desember. ...sjálfboðaliðar ...einhver??

Hérna er mynd af Urði og kettinum í litlu dúkkurúmi sem er gjörsamlega búið að liðast í sundur, af því að þær eru alltaf að leika sér ofan í því, og rífast svo í þokkabót og reyna að bola hvor annarri úr rúminu. Þær eru svei mér þá nánast eins og systur!

Svo er hún Ynja mín svo dásamlega dugleg barnapía, leikur við systir sína og les fyrir hana, þó hún verði stundum þreytt á því að sú litla komi í herbergið hennar að tæta allt upp úr skúffunum. Hún er á alveg mesta tætualdri í heimi ...ég skil ekki hvernig sumir ná að halda öllu tipp topp með barn á þessum aldri, ekki get ég það allavegana.

Vantar ekki einhvern þarna úti góðan rafmagnsgítar?? Ari vill selja einn af sínum sem er Fender Telecaster special edition, rosa flottur og góður gítar. Og fyrir þá sem vantar að gefa gítar í jólagjöf, þá er miklu betra að gefa góðan notaðan gítar, en að kaupa einvhern drasl nýjan sem er ódýr. ...og hér er mynd af dýrgripnum!

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Algjör klúðurs dagur í dag. Ég er búin að vera eitt gangandi stórslys í dag og ætti helst að vera uppi í rúmi með hjálm. Ekki allavegana biðja mig um aðstoð við neitt í dag, því ég mun pottþétt klúðra því einhvernveginn. Ég er með saumó í kvöld og bjó til kökubotna sem ég hef oft búið til áður og þeir m0lnuðu gjörsamleg niður í öreindir þegar ég ætlaði að taka þá úr mótinu.

Nú jæja ...eitt klúður, hvað er það svosem.

Heyrðu, svo ætlar fröken fjölhæf að gera marga hluti í einu, rista haustkex á pönnu ...og læra svolítið í leiðinni (gáfulegt Ester ...mjöööög gáfulegt). Ég lærði aðeins of mikið ...lærði tildæmis að það kemur MJÖG mikill reykur þegar haustkex brennur á pönnu. Ég flúði út til að fá ekki reykeitrun og fékk kaffi og áfallahjálp hjá nágranna mínum. ...afhverju ég fann ekki lyktina strax er óútskýranlegt!!

...auk þess búin að: brjóta einn bolla, hella niður kaffi, hella niður gamalli sósu úr ísskápnum (ætlaði að rýma aðeins til í ísskápnum), ég þurfti að fara í 4 búðir til að finna Kiwi í eina kökuna ...hvergi til kiwi, greinilega ekki sá tími ársins :P, ég er búin að reka höfuðið tvisvar í skápa, hella vatni á peysuna mína, missa desilítramál með flórsykri í ...þegar ég ætlaði svo að skrifa um ófarir mínar, var bloggið bilað.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Koltvísýringur í andrúmsloftinu hefur aldrei áður verið meiri en nú ...vinsamlegast hættið (þið sem vitið upp á ykkur sökina) að hita upp bílinn ykkar á morgnanna og skilja hann eftir í gangi meðan þið hlaupið í búðina og svona.

Það er skárra að vera kalt í 5 mínútur, en að valda því að barnabörnin ykkar eigi eftir að deyja í flóðum og náttúruhamförum.

...og þeir sem halda að þetta sé kaldhæðni eða djók, þá er það vitlaust hjá ykkur! ...og hana nú!!!

laugardagur, nóvember 04, 2006

Búin að breyta baðherberginu fyrir fimmðúskall og það tók bara 5 mínútur!

Hvað ætti ég svo að taka næst? Mig langar held ég svolítið að fara að klára ganginn, þ.e rífa teppið úr stiganum og setja steinteppi, sem er víst það sem við teljum heppilegast í dag. ...eeen það felur víst í sér að ég þarf hjálp frá Ara, þannig að það gæææti dregist á langinn. Ég næ nú samt oft að pína hann í að gera eitthvað, þegar ég hef í minni fljótfærni farið og keypt eitthvað og bara byrjað! Hann treystir mér nefnilega ekki alveg fyrir að gera hlutina RÉTT sko... Hann getur allavegana bókað það að einhvern daginn þegar hann kemur heim úr vinnunni er bara *úps* teppið farið af stiganum og komið fullt af einhverju "steinteppisefni" sem bíður eftir því að stökkva á gólfið ...hehe :D

...og já ekki hafa áhyggjur, ég held að Ari lesi ekki einusinni bloggið mitt. Og ef hann skyldi nú slysast til þess, þá hlýtur hann nú að skilja eftir komment ;)

Kveðja: Ester -sem er alveg með eindæmum hress þessa stundina-

föstudagur, nóvember 03, 2006

Voða voða mikið að gera núna ...próf á morgunn, tíminn flýgur og mér finnst ég alls ekki vera búin að læra nóg. Ég fór með krakkana áðan að taka videospólu, svo að ég sé nú ekki bara leiðinlega mamman sem lærir og segir "uss krakkar" ...ég á nú samt svo klára krakka. Urði tókst áðan á videoleigunni á ná sér í kinderegg úr einni hillunni og bíta í það, ekkert smá ánægð með sjálfasig þar! ...hún er mjög efnileg í namminu held ég.