...hmmm

fimmtudagur, maí 29, 2008

Þessa stundina ætti ég að vera stödd í flugstöðinni á leið til Spánar. Það er búið að breyta flugtímanum okkar 4 sinnum og núna er einhver bilun í vél, þannig að flugið okkar sem átti að vera 11:30 eftir síðustu breytingar er núna áætlað kl. 18:35. ...og já, ÁÆTLAÐ! það er ekki komin staðfesting þannig að því seinkar nú líklega meira. Það er einmitt líka búið að seinka Alicantevélinni frá því í gær, og mig grunar að sú vél eigi eftir að fljúga út til Alecante og til baka aftur að sækja okkur þegar búið er að gera við hana.

Ég, Ari, Halldór og Eva ætlum að fara á Kringlukránna í hádeginu og ímynda okkur að við séum á Spáni :D

sunnudagur, maí 18, 2008

hahaha, hvað ég hló áðan. Urður kom spígsporandi hérna inn eftir að hafa verið úti með Ynju og tilkynnti okkur hróðug með bros á vör að þær hefðu verið að éta hundaskít :D
...þetta var næstum því rétt, en gott að segja kannski frá því að þetta voru hundaSÚRUR sem þær systur voru að éta ;)

laugardagur, maí 17, 2008

Dagurinn í dag hófst með rigningarferð í húsdýragarðinn. Ég man alltaf þegar ég er komin á svona fjöldasamkomur að mér finnst fátt ömurlegra en að standa í biðröðum, krakkagreyin fengu þessvegna ekki að fara í nein tæki (sem þeim fannst reyndar allt í lagi), en við fórum reyndar í pulsuröðina til að fá blauta og klessta pulsu ...ojbara! Urði fannst gaman að skoða dýrin þannig að ferðin var nú ekki alveg til einskis ;)
Svo fórum við í Salinn í Kópavogi þar sem Ynja var að syngja með kór Kársnesskóla. Alveg dásamlegt að horfa á þessar elskur, allar svo sætar og góðar með fallegar englaraddir. Bakkelsið í salnum var nú eitthvað annað en klesstu pulsurnar í Húsdýragarðinum - enda færustu húsmæðurnar í vesturbæ Kópavogs að sjá um baksturinn, þar á meðal ég, hehe ;)
Urði fannst rosalega gaman á tónleikunum. Fyrst var hún svolítið þreytt og notaði puttan á pabba sínum til að troða í nefið á sér, af því að sængin var ekki á svæðinu. En eftir því sem lögin hresstust, hresstist Urður líka og var á endanum farin að hendast um allan salinn dillandi bossanum og hoppandi eins og lína langsokkur með tvær rauðar fléttur sem stóðu út í loftið. - en það var nú í góðu lagi, þetta voru svona frjálslegir tónleikar og maður þarf ekkert að vera stilltur á svoleiðis :)

mánudagur, maí 12, 2008

Ég biðst afsökunar á mjög löngu blogg-hléi :)
Ég hef bara verið alveg á fullu í prófum og ritgerðarskilum. Allan tíman hef ég verið mjög óviss um hvort mér tækist að klára þessar 19 einingar, en ég er nokkuð viss um að það hafi tekist :D ...sem þýðir þá að ég er að útskrifast þann 14.júní.
Við fórum út að borða á laugardaginn á Sjávarkjallarann ...og jeminn, ég fer bara að slefa þegar ég hugsa um það. Við fengum 16 rétta máltið og vááá hvað þetta var gott. Við borðuðum meðal annars hreindýr, naut, önd, kengúru, lax, túnfisk, smálúðu, humar, skelfisk, saltfisk ...og eitthvað fleira, þó ótrúlegt sé! Við Ari skelltum okkur þarna með Halldóri frænda og Evu, sem er konan hans, og Hrund frænku minni, það er ekki hægt að biðja um betri félagsskap við að slafra í sig svona dásamlegum mat :)
...svo er svo margt spennandi framundan, ég byrja í nýrri vinnu á morgunn, fer til spánar eftir rétt rúmar tvær vikur, ásamt áðurnefndum Halldóri og Evu, og svo bara útskrift!
Ástæðan fyrir því að ég er að blogga núna er sú að mér finnst eins og ég hafi ekkert að gera, ég þarf ekki að læra, ég er búin að þrífa allt, Ari og Óðinn eru á bílasýningu og ég er bara hérna heima með ekkert betra að gera en fylgjast með þessum 7 stelpum sem eru hérna núna - mínar tvær og fimm aðrar.
Ég þarf kannski að fara að rifja upp gömul áhugamál eins og að baka eða sauma út, hehe.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Ég er orðin stökkmúsamamma. Stökkmúsakerlingin okkar eignaðist unga í nótt. Ég held að þeir séu 5 talsins, annars er ég ekki búin að sjá þá nógu vel. Músamamman er á fullu að laga bælið og passa litlu ungana sína.
Það er alveg ótrúlegt að þetta geti orðið til á aðeins 3 vikum!

Þannig að ...ef einhvern vantar stökkmýs, þá er ég rétta manneskjan til að tala við.
Smá upplýsingar um stökkmýs: stökkmýs eru afskaplega skemmtileg dýr - mun skemmtilegri en hamstrar, ég hef átt svoleiðis líka. Þær eru alltaf á fullu að forvitnast og gera eitthvað, grafa eða vinna. Það er ekkert mál að halda á þeim, þær eru ekki að stökkva frá manni eins og nafnið gefur til kynna, heldur finnst þeim gaman að troða sér á milli puttanna á manni. Þær elska sólblómafræ. Þær hlaupa EKKI í hlaupahjóli ...sem þýðir enginn hávaði á nóttunni. Þær eru vakandi á daginn - ekki sofandi og í felum eins og hamstrar. Það kemur ekki vond lykt af þeim - eins og gerist hjá hömstrum.
Semsagt, ef þið hafið verið að hugsa um að fá ykkur hamstur, fáið ykkur þá frekar stökkmús :D Þær eru miklu sætari og skemmtilegri :)

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Nú er skoffínið orðið tveggja og hálfs árs og er stöðugt að læra nýja hluti. Það vill nú þannig til að skvísan er ennþá með bleyju og hefur ekki sýnt mikinn áhuga á því að hætta, þrátt fyrir að vita nákvæmlega hvenær hún þarf að nota hana. Ef undarleg lykt fer að finnast í húsinu og grunur beinist að henni, þá neitar hún staðfastlega og snýr rassinum út í horn, eða hleypur inn í skáp og lokar. Í svoleiðis stöðu þarf maður að afla frekari sönnunargagna, og felst það oftar en ekki í því að maður þarf að beygja sig niður og ganga úr skugga um uppruna óþefjarins!

Börn læra ýmislegt af foreldrum sínum. Undanfarið hefur skoffínið því farið að rjúka á fólk og lykta af rassinum á því ef hún finnur grunsamlega lykt eða hljóð sem bendir til þess að eitthvað grunsamlegt hafi átt sér stað.
Þetta getur boðið upp á frekar vandræðaleg augnablik.

Ókei! Af því að þessi staða var komin upp ákvað ég að nú yrði bara að fara að venja hana af bleyjunni. Þessvegna tók ég bleyjuna af henni seinnipartinn í dag og sagði við hana að nú þyrfti hún að fara að hætta með bleyjuna og nota nærbuxur, eins og Ynja og Óðinn.

...ég var ekki fyrr búin að því en hún fór ein inn í fataskápinn hennar Ynju, klæddi sig í nærbuxur af henni og skeit svo í þær!
Það þarf varla að taka fram að Ynja var mjög hress með þetta, hehe :)

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Hér eru nokkrar myndir frá Tenerife, og fyrst erum það við hjónaleysin, all dressed up, á áramótunum. Við borðuðum 5 rétta máltíð, sem var mjög góð, fyrir utan það að nautakjötið var ofsteikt eins og hættir til á svona samkundum.

Svei mér þá ef amman og stelpan eru ekki bara svolítið líkar! Sætir rauðhausar þarna á ferðinni :)

Ynju og Óðni fannst ekki leiðinlegt! Þarna erum við í labbitúr á el duke!

Við systurnar hressar að vanda, með kokteil í hönd.

Ynja og Óðinn á ströndinni...

Hmm, eitthvað er ég nú annarshugar hér og veit ekki alveg að það sé verið að taka mynd. Reyndar er ég upptekin við að fylgjast með ormunum mínum sem voru að skottast í einhverjum fataslám, hjá sérlega duglegum kaupmanni sem var alltaf að laga dótið í búðinni hjá sér þó engir væru viðskiptavinirnir.

Urður var alveg að fíla ströndina, hún sat á sama blettinum allan tímann alveg svakalega bissí!

Ynja og Óðinn höfðu líka nóg að gera við að moka, búa til kastala og sulla í sjónum. Dásamlegt alveg!

Sætu mæðginin Heiðdís og Þorgils að skoða spékoppana sína.

Jæja! Ekkert blogg í langan tíma og tjéllingin að verða þrí-tug um helgina. Þar sem ég var búin að gleyma að ég ætti afmæli verður enginn gleðskapur, en ég á eftir að ákveða hvort það verður eitthvað á næstu helgi eða hvort ég sleppi því bara alveg ...sjá til bara :)

Hvernig væri samt að monnta sig aðeins af miðafsprenginu sínu, sjáið hvað hann er klár ...7 ára drengurinn!




Hér er hann svo að spila blús

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Ohh hvað það getur verið ljúft að vera mamma! Ég lá í sófanum í gær og yndislegu dætur mínar tvær (2 og 11 ára) komu og tóku mig úr sokkunum og nudduðu á mér þreyttu mömmulappirnar með aloe vera geli. Nuddið var að vísu mjög mismunandi fyrir hægri og vinstri fót!
Hægri fóturinn fékk kröftugt og markvisst nudd, sem hafði þann tilgang að örva blóðflæðið og koma smá lífi í fótinn. Viðtakandi nuddsins þurfti af og til að svara spurningum um hvort þetta væri gott svona eða hinsegin þegar kröftugir þumalfingur reyndu að vinna á erfiðu svæðunum á hinum mjög svo (ekki) fögru fótum.
Nuddið á vinstri fæti snerist hvað mest um að koma sem mestu geli á fótinn, litlar og ljúfar strokur frá litlum fingrum, tog í tásur og smá fliss yfir mömmutásum af og til.

Já, svona getur þetta verið ljúft, ...ekki þarf ég að hafa áhyggjur af ljótum tám eða gagnrýni hjá þessum fótsnyrtum. Ég er afskaplega þakklát tásu-mamma, sérstaklega í ljósi þess að ég yrði seint beðin um að auglýsa naglalakk eða ökklabönd ...það myndi að minnsta kosti ekki auka söluna get ég sagt ykkur!

föstudagur, nóvember 02, 2007

Fyrsti dagurinn í langan tíma sem mér hefur actually fundist ég vera dugleg! Ég var alveg super dugleg að læra í dag, var að gera skýrslu og sinna B.A. verkefninu mínu. Svo seinnipartinn þrifum við fjölskyldan allt húsið ...enda ekki vanþörf á. Afkvæmin voru sérlega dugleg að hjálpa til og þessvegna var pantaður kínamatur, keypt nammi og ís og við héldum smá þrifapartý. ...núna ligg ég í rauðvínslegi og eldri tvö eintökin eru að dunda sér við að gera heimasíður á netinu. Ynja hefur verið með síðu í smá stund og Óðinn er að búa til sína fyrstu. Ef þið viljið kíkja er það www.ynjamist.bloggar.is og www.bill.bloggar.is

...það er reyndar allt að bilast í netvæðingunni á heimilinu. Ég er semsagt komin bæði á myspace og facebook...

mánudagur, október 22, 2007


Við Heiða áttum alveg æðislegan dag í gær. Við vorum bara að rölta um, fá okkur rauðvín og skoða mannlífið. Við fórum meðal annars í central park, sem er hérna á myndinni. Það er rosalega skrítið að vera inni í fallegum skógivöxum garði og sjá síðan þennan risavegg handan við tjörnina og trén sem maður horfir á, það verður einhvernveginn svona óraunverulegt að horfa á það ...manni líður eiginlega eins og maður sé að sjá vitlaust!
Þetta er samt ofboðslega notaleg og skemmtileg borg, allir svo kurteisir og hjálpsamir og ótrúlega friðsamt þó hér sé margt fólk og mikið líf. Ég væri sko alveg til í að koma hérna aftur ...og lofa þá kannski Ara að koma með líka :D

laugardagur, október 20, 2007

...bara að láta vita af mér :) Ég er komin til nefjork og búin að sjá æðislega krúttlegu íbúðina hjá Heiðu og Andreu! Lenti bara ekki í neinu veseni við komuna og allt í gúddí fíling bara :D

föstudagur, október 05, 2007

Djöfull er ég orðin léleg í þessu bloggi, það telst heppni ef ég pára eitthvað hérna inn á svona viku fresti!
...en jæja, skítt með það, ég er bara svona svaaaakalega bissí!
Ég er aðallega (svona fyrir utan eðlileg heimilisstörf og nám) búin að vera að brasast í gamalli pappírsvinnu undanfarna daga ...og komast að því að það er ekki mjög auðvelt að fá upplýsingar um það hvar maður var staddur seinni hluta árs 2002.
Málið er nefnilega það, að ég er að fara til New York og pantaði miðann vitandi það að ég er e.t.v. grunuð um að hafa verið ólöglega í bandaríkjunum árið 2002. Þegar ég fór til bandaríkjanna árið 2002 og var þar í tvær vikur, þá týndi ég (eða reyndar henti ég því óvart) blessaða I-94 kortinu sem maður á að skila þegar farið er úr landinu. Ef þú skilar ekki þessu korti, þá getur þú lent í því að vera skráður með óákveðna brottfarardagsetningu úr landinu. Ef þú ert í landinu ólöglega í milli 180 - 365 daga, þá máttu ekki koma til bandaríkjanna í 3 ár. Ef þú ert lengur en 365 daga, þá máttu ekki koma til bandaríkjanna í 10 ár.
Þegar ég fór á sínum tíma, þá var mér sagt að ég yrði að láta stimpla í vegabréfið mitt þegar ég kæmi til íslands, til að ég gæti sannað að ég hefði farið. ég lét gera það ...og týndi svo vegabréfinu mínu!
...nú... ég hafði samband við bandaríska sendiráðið á íslandi og þær sendu mér upplýsingar um það hvað ég þarf að gera, og það var svo MIKLU meira vesen en mig hafði órað fyrir! Ég er búin að hringja skrilljón símtöl hingað og þangað, til að fá skriflegar sannanir fyrir því að ég hafi verið á íslandi síðla árs 2002, ég gat ekkert fengið frá icelandair, ekkert frá sýslumanninum (öllum gögnum um gamla vegabréfið eytt), ekkert frá bankanum ...og í þokkabót er ég ekki alveg viss um brottfarardagsetninguna.
Ég endaði á því að senda út upplýsingar um að ég hafi verið skráð í skóla ásamt einum visareikningi og útskýringabréfi! Þetta alltsaman þurfti svo að sendast í ábyrgðarpósti, og sjálf þarf ég að vera með afrit af öllum gögnunum og ábyrgðarnúmerið þegar ég fer út.
Konurnar í sendiráðinu segja að ég komist örugglea í gegn, en gæti lent í yfirheyrslum.

...þessir ameríkanar!

þriðjudagur, september 25, 2007


Hefur einhver heyrt minnst á fyrirbæri sem kallast the terrible two´s? Það er allavegana í gangi heima hjá mér núna!
Þetta er aldurinn þar sem maður fer að verða svolítið klár og fattar að það er lítið mál að príla bara upp á klósettið til að ná í tannkremstúbuna, það er líka voða lítið mál að ná í litla græna stólinn til að geta enn einusinni náð í blautklútapakkann til að tæta allt upp úr honum ...ótrúlegt hvað það er alltaf jafn gaman!
...og ég meina, hvað hélt mamma eiginlega þegar hún sagði mér að skipta á dúkkunni minni? Hélt hún í alvörunni að ég myndi ekki setja krem á bossann líka?
Það er svo sniðugt, að það er hægt að hella alveg ótrúlega oft úr sykurkarinu áður en það klárast úr því ...eitthvað svona skammtara dót! alveg ferlega sniðugt!

Hvað ætli maður geti hlaupið langt með klósettpappírsrúlluna áður en lengjan slitnar? ...klósettpappírinn já, mamma sagði ekkert um að ég ætti bara að snýta mér einusinni þegar hún bað mig að fara að taka horið ...þannig að ég geri það bara aftur ...og aftur ...og aftur ...og aftur ...og ...vúps, pappírinn búinn!
Hvað er þetta lið að æsa sig ...það voruð þið sem sögðuð mér að sjampóið ætti að fara í hárið! ...hmm, ef sjampó má fara í hárið, þá hlýtur varasalvi líka að meiga fara í hárið ...og bossakrem ...og handáburður...

Mamma málar sig! Af hverju ætti ég ekki að gera það sama? hmmm ...ég er að hugsa um að nota gulan áherslupenna í dag!

Hvað ætli ég sé lengi að taka alla dvd diskana úr skápnum? ...en bækurnar? ...eeen vóóó ...jess! mamma er að brjóta saman þvott, best að bjóða fram aðstoð sína! ...ééééég veit! ég brýt bara aftur saman það sem er í skápnum mínum ...þá þarf ég nú að byrja á því að taka fötin úr skápnum, ekki satt!

Veiiii, ég er bangsímon! Bangsímon borðar hunang! Hér er hunang ...varasalvahunang...

Yndislegur aldur!

miðvikudagur, september 19, 2007

Nú er ég stolt móðir!
Óðinn var í trommutíma númer 2 í dag, og þegar ég kom að sækja hann kom trommukennarinn fram og sagði við mig frekar hissa á svipinn: hann er alveg skuggalega góður ...pikkar allt upp um leið!

...svo á hún Helga tengdamamma mín á afmæli í dag, og ég er líka voða stolt af henni! Það er bara verst að ég geti ekki verið fyrir norðan og slett í svosem eins og eina köku fyrir hana. Við Óðinn hugsuðum að minnsta kosti til hennar þegar við vorum að baka pönnukökurnar í kaffitímanum áðan, hún hefði í það minnsta átt skilið að fá þær :D